Vöruflokkar

Birgjar

Framleiðendur

Hvernig á að nota hliðrænt myndmerki frá Raspberry Pi B+og 2

Til að tengja Raspberry Pi við skjá sem aðeins tekur við hliðrænu myndmerki (composit video) þarf að nota 3,5mm tengið sem er við hlið HDMI tengisins. Um er að ræða fjögurra póla tengi sem skilar bæði mynd og víðóma hljóði. Þá má nota kapal eins og sýndur er á myndinni hér fyrir neðan.

 Hljóð- og myndkapall

Gæta þarf þess að kapallinn sé þannig tengdur að jörð sé tengd við snertu 2 á 3.5mm tenginu sé talið frá húsi út á enda. Einnig getur myndmerkið borist á annað tengi en það sem merkt er „video“. Á kaplinum sem MBR selur er myndmerkið á rauða tenginu en ekki því gula sem er þó merkt „video“. Ef jörð er ekki tengd við pinna 2 getur það gerst að myndin birtist í svart/hvítu eða alls ekki.

Þegar hugbúnaður er settur upp fyrir Raspberry Pi er gert ráð fyrir að HDMI tengið sé notað og í raun nauðsynlegt að nota það til uppsetningar þótt nota eigi tölvuan með hliðrænu myndmerki. Að uppsetningu lokinni þarf að tryggja það að nokkrar stillingar í config.txt skránni séu réttar.

Ef þessi stilling finnst í skránni þarf að breyta henni því hún segir tölvunni að nota HDMI jafnvel þótt það sé ekki tengt.

hdmi_force_hotplug=1

Breyta stillingu í 0 eða taka þessa línu út.

hdmi_ignore_hotplug=1

Ef þessi stilling er sett inn er hliðrænt merki notað þrátt fyrir að HDMI sé tengt. Þá er ekki hægt að flytja tölvuna auðveldlega á milli skjáa. Þessu má sleppa.

sdtv_mode=2

Þetta stillir hliðræna myndmerkið fyrir þær mismunandi útgáfur sem til eru. Hér á Íslandi notum við alla jafna PAL merki og Því þarf að stilla það á 2. Aðrar stillingar eru 0 fyrir NTSC (notað í USA), 1 fyrir japanskt NTSC og 3 fyrir brasilískt PAL.

sdtv_aspect=1

Þessi stilling stýrir því hvaða form er á myndinni 1 fyrir 4:3, 2 fyrir 14:9 og 3 fyrir 16:9

Þar sem margir eru að nota Raspberry Pi (RPi) sem margmiðlunarspilara með OpenElec uppsetningu þarf að tengjast RPi með SSH tengingu frá annarri tölvu til að gera þessar breytingar. Nota má forritið Putty til að tengjast með SSH tengingu. Til þess þarf að vita IP-númer RPi tölvunnar. Þegar tenging næst þarf að skrá sig inn með notanda „root“ og lykilorði „openelec“. Síðan þarf að opna config.txt skránna með eftirfarandi skipunum (athugið að fyrst er minniskortið gert skrifhæft).

mount -o remount,rw /flash

Gera minniskortið skrifhæft

nano /flash/config.txt

Opna config.txt í nano til breytingar

Gera nauðsynlegar breytingar á skránni og vista þær (Ctrl-O og samþykkja yfirskrift og hætta með Ctrl-X)

mount -o remount,ro /flash

Læsa minniskortinu aftur

reboot

Endurræsa vélina.

Nú ætti að vera hægt að nota RPi fyrir skjái/sjónvörp sem aðeins taka við hliðrænu myndmerki.